13.5.2010 | 20:45
Alvaldið Landsvirkjun
Maður hefur oft heyrt því fleygt fram að þegar eitthvað standi til hjá Landsvirkjun þá sé lítið hægt að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar eru teknar. Gildir þá sama hvort um leikmann er að ræða, fræðimenn eða þá sem málið varðar vegna eigna, hlunninda eða vegna náttúrusjónamiða. S.l. þriðjudag fór ég á kynningafund á Hótel Nordica þar sem kynnt voru frumathugun Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslum um mat á umhverfisáhrifum fyrir Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjun, háspennulínur frá virkjunum að álveri, álver á Bakka og sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna fjögurra. Voru þar mættir helstu aðilar sem að þessum málum hafa komið. Gott var kaffið og kleinurnar svo og allar móttökur og framsetning kynningarinnar.
Efnislega hef ég ekki tekið ákvörðun með eða á móti álveri á Bakka. Heildarmyndir verður að birtast fullsköpuð áður. Eitt mál er þó mér skylt en það er lagningu háspennulína yfir Reykjaheiði. Ekki ætla ég að lýsa lagningu þeirra eitthvað nákvæmlega, en hægt er að skoða það á vef Landsnet og víða. En svo fólk átti sig á þessu að þá er fyrirhugað að Hólasandslínan fari vestan við Lambafjöll og áfram norð-vestur og vestan Höskuldsvatns. Með þessu móti er línan lögð nánast við nærumhverfi þeirra bæja sem eiga landið. Til að ná sáttum höfum við með tveim andmælum bent á að hafa hana samsíða Kópaskerslínunni sem liggur til austurs meðfram Höfuðreiðarmúla (miklu austar). en síðan lögð til vesturs sunan Höskuldsvatns. Með því móti væri línan lögð við hlið annarra línu sem hefur staðið lengi og menn almenn sáttir við. Eins og skipulagið gerir nú ráð fyrir þá mun línan valda mikilli sjónmengun, auk þess sem hún fer þvert í gegnum land sem þúsundum vinnustunda hefur verið lagt í að græða upp og koma í veg fyrir uppblástur og niðurbrot á fokbörðum. Hefur þetta verið gert m.a. í góðri samvinnu við Landgræðsluna, auk þess sem vakið hefur athygli árangur í uppgræðslu áður gróðurlausra mela sem þarna eru, en í dag grasigrónir.
Ekki bætir úr fyrirhuguð lagning svonefndra Þeistareykjalínu. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum er hún lögð yfir Jónsnípu niður á Árnahvamm. Þarna er línan lögð yfir háan múla og sama hvort farið er austur eða vestur Reykjaheiði, línan mun bera hátt við himinn. Í andmælunum tveim sem sendar hafa verið er lagt til að línan sé lögð austan og meðfram Höfuðreiðarmúla en þegar múlanum sleppir færi hún til vesturs og sameinaðist Hólasandslínunni. Þannig væri línan minnst áberandi í umhverfinu.
Eins og fyrr hefur komið fram er búið að andmæla þessum línulögnum tvisvar samkvæmt reglum og lögum. Nú bíður okkar að andmæla þessu í þriðja sinn og að þessu sinni til Skipulagsstofnunar. Þetta er víst ferlið í þessum málum, en oft kemur mér í hug að aðferð veiðimannsins sé notuð, þreytir bráðina nógu mikið, þá gefst hún upp á endanum.
En svo ég komi nú aftur að fundinum góða á Nordica að þá, þrátt fyrir gott kaffi og góðar kleinur var andinn eingöngu á einn veg. Þetta er krafa Landsvirkjunar og ekkert múður. Skipulagsaðilar lúta í lægra haldi við Landsvirkjun, skipulag Húsavíkur samþykkir allt sem Landsvirkjun segir, Landsnet gerir bara allt sem Landsvirkjun segir. LANDSVIRKJUN ER ALVALDUR. Maður hefur í tilfinningunni að hverskonar andmæli séu fyrirfram ákveðin dauð og ómerk fyrir þessu ALVALDI.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.